Hefur ræst furðanlega úr stúdentsárganginum

Þeir sem urðu stúdentar frá MR árið 1959 reyna að hittast vikulega og ganga saman. „Fyrst vorum við 100 en nú eru um fjórðungur dáinn. Þeir sem koma og ganga eru milli 10 og 15 og ætla að verða 100 ára“, segir Hildur Bjarnadóttir fyrrverandi fréttamaður sem er ein úr hópnum. Hópurinn gekk í góðu veðri umhverfis Vífilstaðavatn á miðvikudaginn og lauk göngunni með því að fara í kaffi til tveggja úr hópnum Sigurðar Þórðarsonar verkfræðings og Sigrúnar Andrésdóttur fiðluleikara í Garðabæ.

Unnur Skúladóttir og Hildur Bjarnadóttir

Unnur Skúladóttir og Hildur Bjarnadóttir

Ætluðu að sökkva niður úr gólfinu

Hildur segir að það hafi ræst úr skólafélögunum, en rifjar upp að strákarnir í stærðfræðideildinni hafi verið litlir, hræddir og bólugrafnir. „Þeir gátu varla talað, þetta var svakalegt lið í Y-bekknum. Þeir voru svo feimnir og uppburðarlitlir og ætluðu að sökkva niður úr gólfinu ef maður ávarpaði þá. Núna eru þeir mjög sætir og frambærilegir menn“, segir hún og telur að það hafi ræst furðanlega úr skólasystkinunum, enda hafi þetta verið ágætisfólk.

Hugmynd kviknaði um að hreyfa sig

Sigurður og Sigrún sem buðu heim eru með fallegan verðlaunagarð

Sigurður og Sigrún sem buðu heim eru með fallegan verðlaunagarð

 

Það eru skólabræðurnir Eiður Guðnason fyrrverandi sendiherra og Aðalsteinn Eiríksson fyrrverandi skólastjóri sem hafa verið duglegastir að hóa fólkinu saman í göngurnar að undanförnu að sögn Hildar. Eiður segir að hópurinn hafi verið farið að hittast reglulega á meðan hann var í Kína, á árunum 2002-2006. „Menn hittust þá einu sinni í mánuði, drukku kaffi og spjölluðu saman“ segir hann. „Svo kviknaði þessi hugmynd að það væri ekki vitlaust að hreyfa sig meira og ganga“.

Ekki gott að beinbrjóta sig

Hópurinn er búinn að ganga í 4-5 ár en leggur göngurnar af yfir háveturinn, þegar færið er verra. „Það er ekki gott að beinbrjóta sig þegar maður er kominn á þennan aldur“, segir Eiður. Hann segir þetta óformlegt og þeir komi sem koma vilja. Það séu ekki allir sem hafi áhuga á göngum, en það sé mikið sama fólkið sem mæti. Yfir vetrartímann hittast menn svo í kaffi einu sinni í mánuði.

Ótrúlega margar góðar gönguleiðir

„Það er gaman að hitta gamla félaga og spjalla, segir Eiður „með svona hóp er alltaf eins og menn hafi talað saman í gær“, segir hann og bætir við að það séu ótrúlega margar góðar gönguleiðir á höfuðborgarsvæðinu. Hópurinn hafi gengið í Kópavogi, Fossvogi, út í Skerjafjörð, Geldinganes, í Hafnarfirði og Garðabæ og bara hingað og þangað. Hann hafi haft bók Reynis Ingibjartssonar um gönguleiðir á höfuðborgarsvæðinu til hliðsjónar.

Hildur segir að samstúdentarnir úr MR hafi haldið hópinn að mestu leyti frá útskrift. „Sérstaklega auðvitað stelpurnar. Það eru ennþá bæði saumaklúbbar og spilaklúbbar í gangi“, segir hún. Myndirnar hér fyrir neðan sýna að fólk nýtur þess að hittast, rúmum fimmtíu árum eftir útskrift.

Ritstjórn júlí 31, 2015 11:18