Hálftími á dag getur gert kraftaverk

„Það er nóg fyrir fólk að hreyfa sig í þrjátíu mínútur á dag. Þessum tíma má skipta upp í tvennt og hreyfa sig í tvisvar sinnum 15 mínútur. Vísindin hafa ekki getað sannað að það sé munur á því að hreyfa sig samfellt í hálftíma eða skipta þeim tíma í tvennt sem notaður er í hreyfingu. Hvoru tveggja gengur,“ sagði Erlingur Jóhannsson prófessor í íþróttafræði á Menntavísindasviði Háskóla Íslands í samtali við Lifðu núna.

Í ráðleggingum Landlæknisembættisins segir að þeir sem eru eldri og stunda hreyfingu daglega séu oft betur settir en yngra kyrrsetufólk. Regluleg hreyfing er ekki aðeins mikilvæg til að minnka líkurnar á ýmsum sjúkdómum. Hún er ekki síst mikilvæg til að auka líkamlegan og andlegan styrk og vellíðan svo að fólki gangi betur að takast á við verkefni daglegs lífs. Þar er ráðlagt að fullorðið fólk stundi miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur á dag. Miðlungserfið hreyfing er skilgreind sem hreyfing sem krefst þrisvar til sex sinnum meiri orkunotkunar en hvíld. Við miðlungserfiða hreyfingu verða hjartsláttur og öndun heldur hraðari en venjulega en hægt er að halda uppi samræðum. Dæmi um miðlungserfiða hreyfingu eru rösk ganga, garðvinna, heimilisþrif og að hjóla, synda eða skokka rólega.

Því til viðbótar er ráðlagt að stunda erfiða hreyfingu að minsta kosti tvisvar í viku. Erfið hreyfing er hreyfing sem krefst meira en sex sinnum meiri orkunotkunar en hvíld. Erfið hreyfing kallar fram svita og mæði þannig að erfitt er að halda uppi samræðum. Dæmi um erfiða hreyfingu eru rösk fjallganga, snjómokstur, hlaup og flestar íþróttir og önnur þjálfun sem stunduð er með árangur í huga. Æskilegast er að stunda hreyfingu reglulega alla ævi en það er aldrei of seint að byrja segir í ráðleggingum Landlæknisembættisins. Umfram allt sé mikilvægt að velja hreyfingu í stað kyrrsetu í daglegu lífi t.d. með því að velja göngu eða hjólreiðar sem ferðamáta eins oft og mögulegt er, þrífa heimilið, velja stigann í stað lyftunnar, ganga rösklega, synda eða skokka rólega og sinna garðvinnu. Þeir sem hafa lengi lifað kyrrsetulífi geta byrjað á því að fara daglega í göngu og aukið síðan álagið smám saman. Það er til dæmis hægt að gera með því að lengja göngutímann.

 

 

 

Ritstjórn júlí 6, 2023 07:00