Með þrívíddargleraugu og popp

Sigrún Stefánsdóttir

Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Ég hitti mæðgur í gær sem höfðu gengið út af teiknimynd. Sú stutta hafði orðið hrædd. Þá rifjaðist upp fyrir mér fyrsta bíóferðin mín þegar ég var fjögurra ára. Pabbi fór með mig á kvikmynd sem var byggð á sögunni um Gosa. Þegar myndin var hálfnuð varð ég að komast út og kastaði upp af angist fyrir utan Nýja bíó.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan. Nýja bíó er reyndar enn Nýja bíó þó gamalt sé en ég hef látið verulega á sjá. Þó illa tækist til með þessu frumraun mína sem gestur í kvikmyndahúsi – breyttist viðhorf mitt til kvikmynda mjög hratt og ég geri fátt skemmtilegra en að sjá góða kvikmynd. Teiknimyndir eru þar í sérstöku uppáhaldi. Þegar strákarnir mínir voru litlir var ég óspör á að bjóða þeim í þrjú-bíó til þess að sjá teiknimyndir. Margar voru ótrúlega harkalegar þar sem kettir voru lamdir  í klessu og  mýs áttu sér ekki lífsvon – en allt í plati. Allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó.  Ég hló gesta hæst í salnum yfir óförum höfuðpersónanna og var alltaf tilbúin til þess að fara aftur næsta sunnudag til þess að vera góð við synina !

Kvikmyndum fyrir börn hefur farið mikið fram, bæði efnislega og tækilega, og á hverju ári koma ótrúlegar perlur til sýningar fyrir yngstu gestina.  Ég er enn ólæknuð af áhuga mínum á þessu efni og nota nú barnabörnin sem afsökun til þess að fara sjá nýjustu teiknimyndirnar. Síðast fór ég með þrjá ömmustráka og við sáum teiknimynd um naut sem hvorki vildi láta steikja sig á pönnu né enda lífið fyrir sverði nautabana. Lái því það enginn.  Þetta ungnaut elskaði blóm og vildi öllum vel. Enn gerðist það að ég hló hærra en aðrir í salnum. Það er svo áhugavert við margar af þessum nýju teiknimyndum er að þær eru í raun fyrir alla. Ég meðtek skilaboð sem strákarnir náðu ekki. Þeir meðtóku svo önnur sem ég náði örugglega ekki. Ég mæli með því að fara og sjá teiknimyndir og tala nú ekki um ef maður fær að vera með þrívíddargleraugu á nefinu og poppdall í fanginu. Það gerist ekki betra.

 

 

Sigrún Stefánsdóttir janúar 29, 2018 09:15